„Við erum að leggja lokahönd á Svörtu fjöruna, nýja þjónustu- og veitingahúsið í Reynisfjöru, og munum opna alveg á næstu dögum,“ segir Guðni Einarsson í Þórisholti í Mýrdal.
„Þetta er 270 fermetra hús frá BM-Vallá, sem tekur níutíu manns í sæti í kaffi- og veitingahúsastíl. Þetta er fjárfesting upp á 80-90 milljónir króna,“ segir Guðni í samtali við Sunnlenska.
Það eru fjölskyldurnar í Þórisholti, á Reyni og Lækjarbakka í Reynishverfi sem eiga nýja staðinn þar sem átta starfsmenn munu vinna.
Opið verður frá 9 til 22 alla daga sumarsins og einnig verður opið yfir vetrartímann.
„Það er stöðugur straumur ferðamanna í Reynisfjöru alla daga vikunnar. Hingað koma líklega um 300 þúsund manns á ári. Með nýja húsinu ætlum við fyrst og fremst að þjóna þessum hópi ferðamanna með veitingum og salernisaðstöðu,“ bætir Guðni við. Þá má geta þess að þrjú salerni eru fyrir utan staðinn, sem verða opin allan sólarhringinn gegn gjaldi.