Sveinarnir halda sig heima á aðfangadag

Bjúgnakrækir og Hurðaskellir ætla að sitja heima á aðfangadag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli munu ekki heimsækja Selfyssinga og nærsveitunga með pakka á aðfangadagsmorgun.

Þetta kemur fram í orðsendingu frá Ungmennafélagi Selfoss, sem hefur aðstoðað jólasveinana með að halda utan um pakkasendingarnar undanfarin ár.

Blaðamaður sunnlenska.is lagði upp í leiðangur í Ingólfsfjall í morgun til þess að sannreyna þessar fréttir og náði tali af Bjúgnakræki, sem var á leiðinni upp í fjall með tóman poka eftir vel heppnaða nótt.

„Við erum veirulega svekktir með þetta en mamma segir að við þurfum einu sinni að vera skynsamir, þannig að við munum halda okkur í okkar jólakúlu. Það er að segja ef jólakötturinn verður ekki búinn að éta þær allar. Til að kóróna þetta þá er Gáttaþefur búinn að vera eitthvað kvefaður, þannig að við tökum enga áhættu,“ sagði Bjúknakrækir Leppalúðason í einlægu samtali við sunnlenska.is í morgun.

Fyrri greinTuttugu kannabisplöntur gerðar upptækar
Næsta greinGert ráð fyrir jákvæðum rekstri í Ölfusinu