Sveinn Ægir Birgisson, kennaranemi og varabæjarfulltrúi í Árborg, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg sem fer fram 19. mars næstkomandi.
Sveinn skipaði 6. sæti listans í sveitarstjórnarkosningunum árið 2018 og hefur komið inn sem varabæjarfulltrúi á yfirstandandi kjörtímabili.
„Í samfélagi er mikilvægt að sem fjölbreyttastar raddir heyrist og vil ég vera fulltrúi ungs fólks í bæjarstjórn,“ segir Sveinn í framboðstilkynningu sinni. Hann er fæddur og uppalinn Selfyssingur og verður 24 ára í þessari viku. Eftir útskrift frá FSu hefur hann starfað með börnum og unglingum í félagsmiðstöðinni Zelsíuz og í Vallaskóla.
„Það eru forréttindi að vinna með ungu fólki og það vil ég gera til framtíðar. Þess vegna er ég í kennaranámi og er að klára mitt þriðja ár í Háskóla Íslands. Ástæðan fyrir því að ég býð mig fram er að ég vil leggja mitt af mörkum til að gera það samfélag sem ég vil búa í en betra til framtíðar. Byggja þarf upp innviði án þess að skuldsetja komandi kynslóðir, fjárhagsstaða sveitarfélagsins er orðinn grafalvarleg og stefnir skuldaviðmið upp í 180%,“ segir Sveinn.
„Á komandi kjörtímabili þarf að rétta úr kútnum fjárhagslega og greiða niður skuldir. Ásamt því þurfum við að ná í skottið á okkur í innviðauppbyggingu og vera með klárt skólapláss fyrir börn og ungmenni í varanlegu húsnæði til framtíðar. Þá þarf að halda áfram að gæta þess að nóg sé af heitu vatni og byggja nýja kennslulaug fyrir skólasund. Einnig þarf að hefja framkvæmdir við skolphreinsistöð og gæta þess að skólpið renni ekki ósnert út í náttúruna,“ segir Sveinn ennfremur og bætir við að áherslur sínar muni vera á barnvænt samfélag, þar sem öll börn og ungmenni geti náð markmiðum sínum og draumum. „Í barnvænu samfélagi þar sem allir getu blómstrað og fjölskyldur verða hafðar í fyrirrúmi.“