Það var mikið um dýrðir þegar félagar í Hjálparsveit skáta í Hveragerði héldu upp á 40 ára afmæli sveitarinnar síðastliðinn laugardag.
Vel var mætt í afmælisveisluna og voru félagsmenn hæstánægðir með daginn. Til sýnis var ný Toyota Hilux björgunarbifreið sem hjálparsveitin var að festa kaup á og mun bíllinn styrkja bílaflota sveitarinnar til muna.
Í afmælisveislunni var Sveinn B. Sigurjónsson sæmdur heiðursmerki Landsbjargar, fyrir störf sín hjá hjálparsveitinni, en hann er einn af stofnendunum HSSH og hefur sinnt sínu óeigingjarna starfi núna í 40 ár, og er hvergi nærri hættur
Auk þess að undibúa afmælisveisluna tóku félagar í hjálparsveitinni þátt í umfangsmikilli leit að Herði Björnssyni í vikunni fyrir afmælið og um helgina. Meðal annars fór hundateymi frá Hveragerði og leitaði á höfuðbotarsvæðinu. Aðfaranótt föstudags voru félagar við leit framundir morgun og einnig á meðan afmælishátíðinni stóð á laugardaginn.
„Það sýnir að það skiptir engu máli hvaða dagur er, þegar verkefni koma upp þá er reynt að sinna því eftir bestu getu,“ segir í frétt á heimasíðu sveitarinnar.