Það var heldur betur góð stemmning á jólatorginu við brúarsporðinn á Selfossi í dag þegar jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli renndu í hlað á grænni rútu. Þeim var fagnað eins og rokkstjörnum.
Fjöldi fólks var saman kominn á jólatorginu og höfðu bæði ungir og aldnir gaman af uppátækjum jólasveinanna.
Áður en bræðurnir mættu á svæðið söng Karlakór Selfoss nokkur lög og Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar, flutti ávarp.
Eins og venjulega komu sveinarnir akandi yfir Ölfusárbrú uppi á þaki á fjallarútubíl og fengu þeir góðar mótttökur í jólagarðinum þar sem fjöldi fólks var saman kominn. Söluskúrarnir í jólagarðinum voru opnir og öllum var boðið upp á heitt kakó.
Veðrið lék við mannskapinn en talsvert hefur snjóað á Selfossi síðustu daga.