Sveitabúðin Una með glæsilegan grænmetismarkað og kjöt beint frá býli

Hjónin Magnús og Rebekka ásamt Piotr Dera, forstöðumanni Sunnu á Sólheimum. Ljósmynd/VisitHvolsvollur.is

Á Hvolsvelli leynist Sveitabúðin Una, sveitarómantísk minjagripaverslun og markaður sem rekinn hefur verið af hjónunum Rebekku Katrínardóttur og Magnúsi Haraldssyni síðan í janúar 2018.

Núna nýlega opnuðu þau glæsilegan grænmetismarkað og hófu sölu á kjöti beint frá býli.

„Kjötið er frá meistarakokknum Ívari Þormarssyni í Smáratúni í Fljótshlíð,“ segir Rebekka. „Við erum með flott úrval af alskonar kjöti og má þar nefna t.d. lambagrillkjöt í ýmsum marineringum, taðreykt hrossabjúgu, rifið svín, hamborgara, hakk, koníaksmarinerað naut og fleira. Nautakjötið er galloway nautakjöt af geldnautum, það er einstaklega bragðgott og mjúkt undir tönn. Á föstudögum fáum við líka nýbakað brauð frá Ívari, síðast var það dýrindis Bóndabrauð með karrýkeim. Ég er spennt að sjá hvað kemur næsta föstudag!“

Grænmetið kemur nýupptekið á hverjum föstudegi frá Sólheimum og selst meðan byrgðir endast. Samkvæmt Rebekku er um að gera að mæta snemma á svæðið þar sem fersku vörurnar fara fljótt. Markaðurinn hóf göngu sína um síðustu helgi og seldist allt upp á stuttum tíma.

„Þetta er svona fyrstur kemur fyrstur fær. Viðbrögðin voru frábær frá bæði heimamönnum og ferðamönnum og það er auðséð að það er þörf fyrir svona markað hérna. Við erum alveg í skýunum með þetta,“ bætir Rebekka við.

Sveitabúðin Una hefur fengið góða umfjöllun víðsvegar og meðal annars viðurkenninguna Besta verslun á Suðurlandi samkvæmt miðlinum Reykjavík Grapevine í maí 2019.

Nánar er greint frá þessu á visithvolsvollur.is

Fyrri greinÖrugg leið að Litla-Hrauni
Næsta greinTíu Selfyssingar sigruðu Hauka