Sveitarfélagið beiti sér gegn uppboðum

Rangárþings ytra mun leita álits hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um hvort sveitarfélaginu sé heimilt að beita sér gegn því að fasteignir í sveitarfélaginu verði seldar á nauðungaruppboði á meðan réttaróvissa er um lögmæti verðtryggðra fasteignalána.

Minnihlutinn lagði fram tillögu um þetta á fundi hreppsnefndar í vikunni og var hún samþykkt samhljóða í hreppsnefndinni. Oddvitum D- og Á-lista og sveitarstjóra var falið að taka saman erindi og senda til Lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Í greinargerð með tillögunni segir að á meðan óvissa ríkir um lögmæti útreiknings á verðtryggðum lánum telja fulltrúar Á-lista að stöðva beri nauðungarsölur þar sem slík tilfelli eiga við um skilmála lána. 73. gr. nauðungarsölulaga kveður skýrt á um „að rísi upp ágreiningur“ á milli gerðarþola og gerðarbeiðenda, beri sýslumanni að vísa málum frá, eða fresta þeim, þar til úrskurður héraðsdóms liggur fyrir um lögmæti krafna.

Nú séu a.m.k. þrjú mál fyrir héraðsdómi þar sem tekið er á um lögmæti útreiknings og gildi verðtryggðra lána. Í ljósi þessa stendur vilji til að sveitarstjóra verði falið að tilkynna viðkomandi yfirvaldi að sveitarfélagið leggst gegn því að eignir íbúa sveitarfélagsins í sveitarfélaginu verði seldar á nauðungarsölu, án undangengins dóms í viðkomandi héraði.

Fyrri greinSlæm umgengni á gámasvæði
Næsta greinGrunnskólanemar sýna í bókasafninu