Sveitarfélagið kaupir Hallskot

Sveitarfélagið Árborg hefur keypt jörðina Hallskot sem er um 60 hektarar af óskiptu landi Flóagafls við gömlu hreppamörk Eyrarbakkahrepps og Sandvíkurhrepps. Kaupverðið er 16,5 milljónir króna.

Hallskot er um 9% af heildarlandi Flóagafls en áratugum saman hefur verið unnið að landskiptum á umræddu svæði og hefur landskiptanefnd sem skipuð var af sýslumanni haft málið með höndum um nokkra hríð. Nefndinni hefur ekki tekist að ljúka störfum vegna ágreinings um ytri mörk svæðisins.

„Kostnaður sveitarfélagsins vegna þessa málareksturs hefur verið nokkur og fyrirséð að leggja þarf í meiri kostnað til að ljúka umræddum málum,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, og bætir við að meðal annars hafi ekki verið unnt að klára deiliskipulag fyrir fuglafriðlandið vegna landskiptamálsins.

Ásta segir að með kaupunum gæti sveitarfélagið skipt út úr landinu lóð fyrir Hallskot og selt hana, en einnig væri mögulegt að selja aðra hluta landsins ef áhugi væri fyrir hendi.

Fyrri greinÞurfum við að taka inn vítamín?
Næsta greinKynningartilboð fyrir sunnlenska hjólara