Bæjarráð Ölfuss samþykkti á fundi sínum í vikunni að styrkja útgáfu bæjarblaðsins Bæjarlífs um 520 þúsund krónur í tilefni af tíu ára afmæli blaðsins.
Forsvarsmenn Bæjarlífs, þeir Róbert Ingimundarson og Stefán Þorleifsson, mættu á fundinn og gerðu grein fyrir rekstri Bæjarlífs á undanförnum árum.
Eftir að þeir höfðu svarað spurningum bæjarráðs véku þeir af fundi og í kjölfarið samþykkti bæjarráð að veita þeim styrk.
„Í tilefni af 10 ára afmæli Bæjarlífs vill bæjaráð óska úgefendum til hamingju með útgáfuafmælið og af því tilefni veita útgáfunni fjárhagslegan styrk að upphæð kr. 520.000.- sem þakklætisvott fyrir óeigingjörn störf í þágu samfélagsins í Sveitarfélaginu Ölfusi og til þess að stuðla að áframhaldandi útgáfu blaðsins,“ segir í bókun sem samþykkt var á fundinum.