Sveitarfélagið Árborg fær jafnlaunavottun

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarfélagið Árborg hefur fengið jafnlaunavottun en í henni felst staðfesting á því að hjá sveitarfélaginu sé fyrir hendi jafnlaunakerfi samkvæmt kröfum jafnlaunastaðals.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, segir að það sé ástæða til þess að þakka starfsfólki sveitarfélagsins að þessi vottun sé nú í höfn, því mikil vinna liggur að baki.

„Verkefnið hófst í lok árs 2018 og hefur nýr mannauðsstjóri sveitarfélagsins leikið lykilhlutverk í vinnunni. Fjölmargir aðrir hafa komið að verkinu og hafa launadeild, sviðsstjórar, forstöðumenn og margt fleira starfsfólk lagt sitt af mörkum til að ná þessum árangri,“ segir Gísli.

Hann bætir við að með jafnlaunakerfinu megi tryggja jafnræði í launaákvörðunum og að reglubundið verði fylgst með því að starfsfólk í sambærilegum störfum hafi sambærileg laun, óháð kynferði.

„Þetta reglubundna eftirlit þýðir að verkefninu er engan veginn lokið og lýkur í raun aldrei alveg,“ segir Gísli ennfremur.

Faggiltur vottunaraðili metur hvort öll skilyrði staðalsins hafi verið uppfyllt og í tilfelli Árborgar var það BSI á Íslandi sem sá um matið og vottunina samkvæmt ÍST 85:2012 staðlinum.

Árborg er fjórða sveitarfélagið á Íslandi til að hljóta jafnlaunavottun og hið fyrsta á Suðurlandi. Áður hafa fengið jafnlaunavottun Hafnarfjarðarkaupstaður, Mosfellsbær og Fljótsdalshérað.

Fyrri greinHugljúfir styrktartónleikar í Eldhúsinu
Næsta greinStyðja við byggingu fimm leiguíbúða í Árnesi