Sveitarstjórn leggst alfarið gegn áformum um stofnun miðhálendisþjóðgarðs

Bláfell. Ljósmynd © Mats Wibe Lund - mats@mats.is

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggst alfarið gegn áformum um stofnun miðhálendisþjóðgarðs sem kynnt hafa verið sveitarfélögum á umliðnum vikum.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar var lagt fram minnisblað frá sveitarstjóra Húnavatnshrepps ásamt bókun sveitarstjóra Húnavatnshrepps um málið. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fagnar erindi Húnavatnshrepps og tekur heilshugar undir þau sjónarmið sem þar koma fram.

„Nefnd sem skipuð var af umhverfis- og auðlindaráðherra á vordögum 2018 hefur það hlutverk að vinna að tillögum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu, en hvorki að meta eða gera tillögu um hvort stofna skuli slíkan þjóðgarð, né heldur að meta kosti og galla slíkrar stofnunar. Samráð um þann grundvallarþátt málsins, hvort stofna skuli þjóðgarð á miðhálendinu, hefur ekki átt sér stað,“ segir í bókun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar og þar er bætt við að stofnun þjóðgarðs hafi óhjákvæmilega í för með sér að skipulagsvald sveitarfélaga skerðist.

„Lagaramminn um þjóðgarða er þess eðlis að verulegur hluti skipulagsvalds er færður frá sveitarstjórnum með stjórnunar- og verndaráætlunum sem binda hendur sveitarstjórna þegar m.a. kemur að ákvörðunum um landnýtingu, mannvirkjagerð, samgöngur og aðra innviði. Allir þeir meginþættir sem felast í skipulagsvaldi eru því færðir frá sveitarfélögunum.“

Stöðugt vegið að sjálfstæði landsbyggðarsveitarfélaga
Í bókun sinni segir sveitarstjórn Bláskógabyggðar ennfremur að hún telji ekki ásættanlegt að stjórn og umráð yfir 40% Íslands verði í höndum fárra aðila.

„Stöðugt er vegið að sjálfstæði landsbyggðarsveitarfélaga og þeim ekki treyst fyrir því landsvæði sem er innan þeirra sveitarfélagsmarka. Í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á rekstur þjóðgarða á Íslandi má glöggt sjá að mjög víða er pottur brotinn t.d. í viðhaldi vega, fráveitumálum og merkingum svo eitthvað sé nefnt. Ljóst er að mörg stór verkefni sem útheimta mikið fjármagn bíða framkvæmda í þjóðgörðum landsins. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fær ekki séð hvernig ríkinu ætlar að takast að halda utanum, sinna og fjármagna, öll þau stóru verkefni sem munu bætast við verði miðhálendisþjóðgarður að veruleika,“ segir í bókuninni en sveitarstjórn Bláskógabyggðar vísar meðal annars í nýlega umsögn Sveitarfélagsins Hornafjarðar þar sem segir að mikilvægt sé að tryggja þjóðgörðum sem fyrir eru í landinu rekstrargrundvöll áður en lögð er áhersla á að stofna nýjan þjóðgarð.

Fyrri greinTímabilið líklega búið hjá Einari
Næsta greinMalbikað og valtað í Árborg í sumar