Sveitarstjórn Mýrdalshrepps samþykkti á síðasta fundi sínum tillögu að aðalskipulagi hreppsins til ársins 2028. Fjöldi athugasemda breytti ekki stefnumörkun sveitarfélagsins.
Tillagan var auglýst í vor og alls bárust 61 athugasemd og átta umsagnir. Í tilkynningu frá Ásgeiri Magnússyni, sveitarstjóra, kemur fram að viðbrögð við athugasemdum hafi ekki breytt stefnumörkun sveitarfélagsins, en leitt til leiðréttinga og skýrara orðalags í greinargerð og umhverfisskýrslu.
Á fundi sveitarstjórnar lét Eva Dögg Þorsteinsdóttir, fulltrúi minnihlutans, bóka að í athugasemdum sé verið að kalla eftir skýrari rökstuðningi á nýrri veglínu. „Sá rökstuðningur hefur ekki komið fram, en mikið er vísað í mat Mýrdalshrepps. Einnig koma fram ýmsar staðreyndarvillur í svörunum sem gefa ranga mynd af þeim rökstuðningi sem þar er settur fram,“ segir Eva.
Samþykkt skipulag hefur nú verið sent til Skipulagsstofnunar til staðfestingar.