Sveitarstjórn samþykkti vegagerð og vinnubúðir við Vaðöldu

Tölvugerð mynd Landsvirkjunar af vindorkuverinu við Vaðöldu.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti samhljóða á fundi sínum í morgun að veita framkvæmdaleyfi til vegagerðar og uppsetningar vinnubúða innan framkvæmdasvæðis vindorkuvers við Vaðöldu.

Umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi við vindorkuverið var tekin fyrir á fundinum í morgun.

Sveitarstjórn samþykkti að veita framkvæmdaleyfi vegna vegagerðar og vinnubúðanna, sem eru tímabundin mannvirki sem verða fjarlægð í lok fyrirhugaðra heildarframkvæmda innan svæðisins.

Umsókn Landsvirkjunar um útgáfu framkvæmdaleyfis til að reisa allt að 120 MW vindorkuver með allt að 30 vindmyllum, geymslusvæði, safnstöð og efnistöku var vísað til frekari meðferðar hjá skipulags- og umferðarnefnd sveitarfélagsins og umhverfis-, hálendis- og samgöngunefndar.

Á síðari stigum þarf Landsvirkjun að sækja um frekari leyfi vegna uppbyggingar vindorkuversins, þ.á.m. efnistöku, gerð áningarstaðar og byggingar vindmylla og tengivirkis.

Fyrri greinOpna dyrnar til aukins tengslanets og samstarfs
Næsta grein„Afslappaðir og heimilislegir tónleikar, þar sem gæti brostið á með spjalli“