Sveitarstjórn vill sjá raunverulegar og öflugar tillögur

Íslenska sauðkindin og drottning íslenskra eldfjalla. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarstjórn Rangárþings eystra fagnar nýskipuðum starfshóp þriggja ráðuneyta, sem mun leggja mat á og koma með tillögur til úrbóta þeirri íþyngjandi stöðu sem komin er upp í landbúnaði í kjölfar endurtekinna hækkana á stýrivöxtum og verðhækkana á aðföngum.

Sveitarstjórn skorar á starfshópinn að koma með raunverulegar og öflugar tillögur til langstíma um endurfjármögnun lána til bænda.

„Tryggja þarf að afurðaverð og stuðningur frá búvörusamningum standi undir þeim kröfum sem gerðar eru til aðbúnaðar og aðstöðu bæði manna og dýra. Íslenskir bændur framleiða gæðaafurðir á heimsmælikvarða en í alþjóðlegum samanburði eru laun og annar framleiðslukostnaður landbúnaðarvara afar hár. Jafnvel hafa frásagnir bænda bent til þess að ekki allir bændur geti greitt sér laun,“ segir meðal annars í áskorun sveitarstjórnar til starfshópsins.

„Í Rangárþingi eystra og í Rangárvallasýslu allri er landbúnaður og afleidd störf ein stærsta atvinnugrein svæðisins með mikla framleiðslu landbúnaðarafurða. Sem dæmi má nefna að mjólkurframleiðsla og sauðfjárrækt er með því mesta sem gerist á landinu og því telur sveitarstjórn að stórslys sé í aðsigi ef rekstragrundvöllur bænda og fjölskyldna þeirra bresta eins og teikn eru á lofti um,“ segir einnig í áskoruninni frá sveitarstjórn Rangárþings eystra.

Fyrri greinHitaveita Grímsnes- og Grafningshrepps kaupir Orkubú Vaðness
Næsta greinVatnslagnir í Ölfusárbrú stækkaðar