Sveitarstjórnin vill svifryksmæli við Skaftá

Kirkjubæjarklaustur. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Sveitarstjórn Skaftárhrepps óskar eftir því að Veðurstofa Íslands eða sambærileg stofnun standi að uppsetningu svifryksmæla við Skaftá og fylgist með svifryksmengun á svæðinu.

Þetta kemur fram í ályktun sveitarstjórnar frá fundi hennar í gær.

Síðustu misseri hefur leirfok úr farvegi Skaftár verið mikið og leggst þá svifryk yfir nærliggjandi svæði og samkvæmt sveitarstjórninni fer það trúlega oft hátt yfir heilsuverndarmörk.

„Engir svifryksmælar eru þó á svæðinu en slíkt ætti að vera grundvallaratriði til að fylgjast með ástandinu og senda út viðvaranir til þeirra sem viðkvæmir eru,“ segir í ályktun sveitarstjórnar.

Fyrri greinSólvellir fá framkvæmdastyrk
Næsta greinJón Daði til Millwall