„Við vorum að klára tökur á stuttmyndinni Dalía, sem er lokamyndin mín úr Columbia háskóla í New York,“ segir Brúsi Ólason í samtali við sunnlenska.is.
„Myndin er um strák sem fer í sveit til pabba síns sem hann hittir greinilega sjaldan. Helgin sem hann eyðir með pabbanum atvikast svo þannig að það þarf að fella meri sem slasast og í gegnum þá lífsreynslu verður til sterkara samband á milli feðganna,“ segir Brúsi. Með hlutverk feðganna fara Baldvin Tómas Sólmundarson og Sveinn Ólafur Gunnarsson.
„Mig langaði að finna flatlendi sem væri síðan brotið upp af ægilegum fjöllum svo við tókum myndina að stórum hluta til upp undir Eyjafjöllum en líka heima í Litlu-Sandvík. Flest sem gerist innandyra er tekið upp þar og það sem er utandyra er fyrir austan,“ segir Brúsi.
Sveitaþema
Brúsi hefur verið búsettur í New York í rúm fjögur ár þar sem hann hefur lagt stund á leikstjórn og handritaskrif við Columbia háskólann. Dalía er þriðja myndin sem hann bæði leikstýrir og skrifar handritið að, annað hvort einn með með öðrum, en áður hefur hann gert myndirnar Sjáumst og Viktoríu sem voru einmitt líka teknar upp á Suðurlandi og vöktu þó nokkra athygli á kvikmyndahátíðum víða um heim.
Bæði Dalía og Viktoría eiga það sameiginlegt að gerast í sveit og Sjáumst gerist í smábæ. Það má því segja að það sé ákveðið sveitaþema yfir myndunum hans Brúsa.
„Ég á fleiri hugmyndir en þessar sveitamyndir en vissulega togar sveitin í mann. Ég býst við því að þetta eigi eftir að loða við mig eitthvað fram eftir ferlinum en ég stefni á að gera fleira líka. Núna er ég búinn að safna góðum grunni fyrir New York sögur til dæmis. Svo er líka margt sem mig langar að segja um Reykjavík,“ segir Brúsi.
Aðspurður hvort honum finnist það vera honum til framdráttar í skólanum að vera frá Íslandi segir Brúsi ekki svo vera. „Það er náttúrulega mjög auðvelt að finna fallega staði til að skjóta en handritið þarf að vera gott.“
Meiri græjur og fleira fólk
Brúsi segir að stærsti munurinn á fyrri myndum og þessari sé umfangið. „Allar myndir sem ég hafði gert fyrir þessa voru mjög ódýrar í framleiðslu og þar af leiðandi minni í umfangi. Söguheimurinn er ekki ósvipaður og í Viktoríu, síðustu mynd sem ég gerði en þar sem við vorum búin að fá einhverja styrki héðan og þaðan þá vorum við með aðeins meira fjármagn fyrir græjum og mannskap.“
Aðspurður hvenær Íslendingar geti séð Dalíu segir Brúsi ekki vita það. „Ég er hreinlega ekki alveg viss hvenær hún verður sýnd hérna heima en hún verður að minnsta kosti sýnd í New York í maí þegar ég útskrifast. Það gæti alveg farið svo að við frumsýnum hana bara sjálf í Bíó Paradís og sýnum þá jafnvel hinar myndirnar okkar með. Annars skoðum við líka kvikmyndahátíðirnar sem eru í boði hérna heima.“
Hvað varðar framtíðarplön er Brúsi með ýmis verkefni í deiglunni.
„Ég ætla að nýta síðasta árið í náminu að vinna í handriti að mynd í fullri lengd sem ég gæti keyrt af stað með um leið og ég útskrifast en myndir í fullri lengd eru náttúrulega aðeins stærri biti en svona stuttmyndir. Svo langar mig líka að koma af stað þróun á sjónvarpseríu. Ég er með nokkrar hugmyndir sem mig langar að skoða betur. Sem sagt nóg að gera þó að lokamyndin sé komin í hús,“ segir Brúsi.
Gerir enga mynd einn síns liðs
Brúsi klárar námið næsta vor en er þó ekki á leið heim í bráð. „Ég útskrifast í maí árið 2020 og stefni á að reyna að vinna þar í eitt ár eftir útskrift. Ég hef verið duglegur að klippa myndir þarna úti í náminu og hugsa að það væri gaman að reyna að klippa eins og eina mynd í fullri lengd ef ég kemst í svoleiðis gigg,“ segir Brúsi.
„Mig langar að lokum að benda á að ég er með mikið af góðu fólki með mér í þessu sem ég ef afar þakklátur fyrir að fá að vinna með. Ég geri enga mynd einn, við gerum þær allar saman,“ segir Brúsi að lokum.