Eftir óvenju vondan seinni part síðasta vetrar sér mikið á furu og fjallaþin á Suðurlandi. Trén eru sviðin og ljót og einnig er talsvert um að tré hafi drepist.
Frá þessu er sagt á vef skógarbænda. Böðvar Guðmundsson, áætlunarfulltrúi hjá Suðurlandsskógum, fór um skóga Þjórsárdals og skoðaði skemmdir á þin í júlí í sumar.
Á heimasíðu Skógræktarinnar er greint frá skýrslu Böðvars um málið en hann segir að vind- og þurrkskaðar séu miklir og áberandi mestir á trjám sem standa á vindasömum stöðum. Þar sem nýtur algjörs skjóls séu skaðarnir minni, en oft einhverjir þó.
Þannig sé það ekki ekki eingöngu vindur og útþurrkun sem veldur þessu; einhverjir aðrir þættir veðurfarsins ráði hér einnig einhverju um. Veturinn hafi ekki verið kaldur, en þó hafi blotar nánast engir verið í janúar og febrúar og svellalög áberandi mikil. Skemmdir á trjám hafi farið að koma fram í apríl.