Sviða- og svínasulta menguð af bakteríu og E. coli

Höfuðstöðvar Matvælastofnunar á Selfossi. sunnlenska.is/Sigmundur

Stýrihópur um rannsókn hópsýkingar á þorrablótum á Borg í Grímsnesi og Versölum í Þorlákshöfn hefur greint frá niðurstöðum sínum en þar kemur fram að orsakavaldur sýkingarinnar geti verið svokallaður enteropathogenic E. coli og/eða Bacillus cereus bakteríur.

Niðurstöður sýnatöku leiddu í ljós að svínasulta og sviðasulta af hlaðborðunum voru mengaðar af bakteríunni Bacillus cereus og svínasultan að auki af E. coli. Háar heildargerlatölur benda til þess að matvælin hafi staðið í töluverðan tíma án viðunandi kælingar, sem gefur bakteríunum færi á að fjölga sér.

Meðferð matvælanna ábótavant
Greining á sýnum úr sviðasultu og svínasultu úr órofnum umbúðum frá framleiðendum leiddi hins vegar í ljós að varan sjálf var án mengunar. Því virðist sem kælikeðja matvælanna hafi rofnað en með kælikeðju er átt við kerfi sem tryggir viðeigandi geymslu, flutning og meðhöndlun vara sem eru viðkvæmar fyrir hitabreytingum. Þessar niðurstöður benda til að meðferð matvælanna hafi verið ábótavant hjá Veisluþjónustu Suðurlands.

Við fyrstu eftirlitsheimsókn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands í Veisluþjónustu Suðurlands var alvarlegt frávik skráð þar sem starfsemin var án starfsleyfis. Einnig var aðstaða til handþvotta ófullnægjandi í eldhúsi. Heilbrigðiseftirlitið fór yfir verkferla með veisluþjónustunni og mun fylgja eftir að úrbætur verði gerðar.

Upptök gerlanna ekki ljós
Eins og sunnlenska.is greindi frá í gær bárust upplýsingar um veikindi hjá 140 af 400 gestum á þorrablótunum tveimur. Einkenni voru fyrst og fremst niðurgangur og kviðverkir en hluti tilkynnti einnig um ógleði, uppköst og hita.

Í mörgum tilkynningum nefndi fólk að grunur beindist að kartöflum og uppstúfi sem orsakavaldi en ekki náðist að taka sýni af þeim matvælum þar sem afgangar voru ekki til staðar. Krosssmit getur orðið á milli matvæla og segir stýrihópurinn að ekki liggi ljóst fyrir hvar gerlarnir áttu upptök sín.

Árni Bergþór Hafdal Bjarnason, eigandi Veisluþjónustu Suðurlands, sagði í samtali við sunnlenska.is í gær að það væri engin leið að segja til hvernig þessi baktería komst inn í vistkerfi veisluþjónustunnar.

Stýrihópur sóttvarnalæknis vinnur enn úr gögnum sem tengjast rannsókn málsins en lokaniðurstaða verður birt í skýrslu hópsins á næstunni.

Fyrri greinÓlýsanleg gleði að fá Bjart aftur heim
Næsta greinGestirnir skoruðu sex mörk á Selfossvelli