Björgunarsveitir og sjúkralið sóttu í dag konu sem brotlenti svifdreka sínum í klettabelti í Núpafjalli í Ölfusi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti konuna til Reykjavíkur en hún reyndist fótbrotin. Félagi konunnar hafði samband við Neyðarlínuna kl. 14:50 í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg sigu læknir og sigmaður þyrlunnar að konunni og var hún í kjölfarið hífð um borð.
Björgunarsveitir frá Hveragerði, Árborg og Þorlákshöfn voru kallaðar út ásamt sveit undanfara af höfuðborgarsvæðinu.
Vel gekk að komast að konunni en svæðið var erfitt yfirferðar og var því þyrla LHG fengin til aðstoðar. Ljósmynd/HSSH
Þyrla Landhelgisgæslunnar yfir slysstaðnum. sunnlenska.is/Karl Ágúst Hoffritz