Svifryksmælir Umhverfisstofnunar sem staðsettur er á Hvolsvelli verður fluttur undir Eyjafjöll við fyrsta tækifæri.
Mælirinn hefur verið staðsettur á Hvolsvelli frá því í september. Ástæða þess að mælirinn var settur þar er m.a. að Hvolsvöllur er það svæði á helsta áhrifasvæði eldgossins þar sem flestir íbúar eru og þar eru bæði leikskóli og grunnskóli.
Þann tíma sem mælirinn hefur verið á Hvolsvelli hefur ástand loftgæða almennt verið gott og aðeins þrisvar hafa mælingar verið yfir heilsuverndarmörkum. Það var í lok október.
Mjög fáir dagar hafa komið á Hvolselli á mælitímabilinu þar sem öskufoks hefur gætt af einhverju ráði. Á sama tímabili hafa hins vegar verið allmargir dagar þar sem talsvert öskufok hefur verið undir Eyjafjöllum.
Í ljósi þessa metur Umhverfisstofnun það svo að meiri þörf sé fyrir mælinn undir Eyjafjöllum. Einnig komu fram eindregnar óskir frá íbúum undir Eyjafjöllum að flytja mælinn þangað.
Í frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar segir að í samráði við sveitarstjóra Rangárþings eystra og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi stofnunin því ákveðið að flytja mælinn frá Hvolsvelli og staðsetja hann undir Eyjafjöllum við fyrsta tækifæri.