Svíum kennt að brugga

„Ja, eiginlega eru námskeiðin orðin þrjú vegna mikillar aðsóknar,“ segir Jón E. Gunnlaugsson hjá Ölvisholt brugghús sem heldur masterclass námskeið á bjórhátíð í Svíþjóð um aðra helgi.

Námskeiðin fara fram á alþjóðlegu bjórhátíðinni, The European beer and whiskey festival, í Svíþjóð 6. til 8. október.

„Erlendis finnst mönnum ákaflega sérstætt að það skuli vera rekið brugghús á heimsmælikvarða á Íslandi þar sem flytja þarf allt hráefni á staðinn,“ segir Jón, enda segir í kynningu bjórhátíðarinnar að námskeiðin fjalli um það hvernig á að reka brugghús „in the middle of nowhere.“

Jón segir að á bjórhátíðinni verði líka boðið upp á tvær nýjar bjórtegundir frá Ölvisholti; SorbonX og Angry Ale, sem eru sérhannaðar fyrir tvö veitingahús í Svíþjóð. Sérkenni þeirra er að þeir eru þurrhumlaðir og í föl öls (pale ale), amerískum stíl.

Ölvisholt brugghús var stofnað árið 2007 og flytur núna bjór út til Svíþjóðar, Danmerkur, Kanada og brátt einnig til Bandaríkjanna.

Fyrri greinRefir ógna fuglalífi í Bláskógabyggð
Næsta greinTveir á hvolfi