
Góðgerðardögum í Sunnulækjarskóla á Selfossi lýkur í dag með glæsilegum jólamarkaði í íþróttahúsinu Baulu.
„Við erum búin að vera að föndra allskonar jólaskraut og jóladót sem er hægt að kaupa og svo gefum við björgunarsveitinni allan peninginn,“ sagði áhugasamur sölumaður í 2. bekk í samtali við sunnlenska.is í morgun.
Vöruúrvalið á markaðnum er ótrúlega fjölbreytt og glæsilegt en nemendurnir selja þar ýmsan varning sem þeir hafa verið að búa til undanfarna daga. Í Fjallasal er svo kaffihús með lifandi tónlist og jólastemmningu þar sem hægt er að tylla sér niður og kaupa veitingar.
Í ár rennur allur ágóði af góðgerðardögunum til Björgunarfélags Árborgar og þeir sem hafa áhuga geta enn litið við í skólanum en markaðurinn er opinn til 12:30.
