Aska tók að falla á Hvolsvelli á sjötta tímanum í morgun en mikið öskufall var undir Eyjafjöllum í gærkvöldi og nótt.
Upp úr klukkan sjö varð vart við öskufall á Selfossi og í Hveragerði. Á Hvolsvelli er allt svart en öskufallið var mjög þétt þar í morgun með rigningu sem leit út fyrir að vera svört. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu má búast við lítilsháttar öskufalli á höfuðborgarsvæðinu síðar í dag.
Skyggnið undir Eyjafjöllum fór allt niður í tvo metra í gærkvöldi og undir morgun færðist öskufallið inn í Fljótshlíð. Ekki sést til eldstöðvarinnar en gosmökkurinn stígur hærra upp en undanfarna daga, í um það bil níu kílómetra hæð. Ekkert lát er á gosvirkninni og í gærkvöldi sáust eldglæringar í öskumekkinum.