Hæstiréttur sýknaði í gær mann af ákæru sem Héraðsdómur Suðurlands hafði dæmt í tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið fyrir stuld á rotþró í Grímsnesi árið 2008.
Rotþróin stóð utan við sumarhús í Grímsnesi þaðan sem maðurinn átti að hafa tekið hana og sett hana niður við sumarhús sem hann var að vinna við. Hæstiréttur staðfesti hins vegar ákærulið sem snýr að skjalafalsi en maðurinn játaði að hafa fengið þriðja aðila til að breyta sölukvittun fyrir samskonar rotþró.
Hæstiréttur gerir athugasemdir við rannsókn lögreglu á málinu og segir hana um margt ábótavant. Engin rannsókn fór fram á vettvangi þótt kærandi hefði upplýst lögreglu um það, er hann kærði ætlað þjófnaðarbrot, að ,,greinileg ummerki hafi verið eftir bifreið á mjóum hjólbörðum sem hugsanlega hafi tekið rotþróna.“
Þá verði ekki séð að sérstök rannsókn hafi farið fram á ljósmynd af rotþrónni til þess að ganga úr skugga um hvort það væri sama rotþróin og maðurinn var sakaður um að hafa stolið.
Eigandi sumarhúss í Grímsnesi tók eftir því sumardaginn fyrsta árið 2008 að rotþró sem hafði verið fyrir utan bústaðinn hans var horfin. Hann tilkynnti stuldinn til lögreglu umsvifalaust og gaf skýrslu. Smiður sem vann við sumarhúsið veitti því síðar athygli að nýverið hefði rotþró verið sett niður við annað sumarhús og tilkynnti það lögreglu.
Lögregla hafði samband við sakborning í málinu sem neitaði þegar sök. Hann játaði að hafa sett niður rotþró nýverið en hana hefði hann keypt sjálfur nokkrum dögum fyrr. Gengið var á manninn að sýna kvittun en sem hann gerði ekki og því fór svo að rotþró hans var grafin upp.
Á svipuðum tíma fór maðurinn með kvittun fyrir rotþró og hengdi upp við sumarhúsið þar sem rotþróin hafði verið tekin. Eigandi sumarhússins fór rakleiðis með kvittunina til lögreglu og reyndist hún fölsuð. Við yfirheyrslu hjá lögreglu játaði maðurinn að hafa látið breyta umræddri kvittun fyrir sig og hengt hana fyrir utan bústaðinn í þeim tilgangi að hreinsa sig af áburði um þjófnað.
Þrátt fyrir þetta neitaði maðurinn ávallt sök. Hann var hins vegar sakfelldur fyrir skjalafalsið og tveggja mánaða skilorðsbundinn dómur Héraðsdóms Suðurlands látinn standa.
UPPFÆRT 20. DESEMBER 2010: Sunnlenska.is leiðréttir hér með fyrri fréttaflutning sinn af málinu. Áður hafði verið greint frá því að maðurinn hefði verið sakfelldur fyrir báða ákæruliði en það er ekki rétt. Hlutaðeigandi eru beðnir afsökunar á mistökunum.