Haldið var upp á öskudaginn á Selfossi í dag eins og á flestum stöðum á landinu. Upp úr hádegi byrjuðu grímuklædd börn að streyma í fyrirtæki og verslanir.
Eftir að hafa sungið eitt lag eða sagt brandara fengu börnin sælgæti að launum. Langoftast varð lagið Gulur, rauður, grænn og blár fyrir valinu og má gera ráð fyrir því að margt afgreiðslufólk muni þurfa að dvelja í þögninni í kvöld.
Almennt var vel tekið á móti börnunum og einhver fyrirtæki keyptu meira að segja auka gotterí þegar nammiskálin var orðin tóm.
Eins og áður voru búningar barnanna bæði heimagerðir og keyptir eða bland af hvoru tveggja og var augljóst að mörg börnin höfðu lagt mikla vinnu og hugsun í búninginn sinn.
Samkvæmt þjóðtrúnni á öskudagurinn sér átján bræður. Megum við því búast við svipuðu veðri og var í dag til 3. mars.