Krakkarnir í 7.-10. bekk grunnskólans á Kirkjubæjarklaustri syntu fyrir skömmu í heilan sólarhring í fjáröflunarskyni fyrir félagsmiðstöðina sína, Klaustrið.
Þurfti hver og einn að taka 30 mínútna sundsprett og synda rúman kílómeter í senn, á tveggja og hálfs tíma fresti. Tókst þeim að synda samtals 90 kílómetra á þessum sólarhring.
Til gamans má geta þess að alls voru þetta 5.208 ferðir en sundlaugin á Kirkjubæjarklaustri er 16,7 metra löng.
Eins og sjá má á myndinni voru krakkarnir hressir og ánægðir að þessu afreki loknu, en nokkuð lúnir, eins og að líkum lætur. En þau létu ekki þar við sitja, heldur tóku að sér vörutalningu í versluninni Kjarval um morguninn og unnu við hana fram eftir degi.
Ágóðann ætla þau að nota meðal annars til að taka þátt í Samfés 2013 en því fylgir mikill kostnaður. Því vilja krakkarnir nota tækifærið núna og þakka öllum þeim sem hétu á þau, kærlega fyrir stuðninginn.