Frá næstu áramótum taka gildi ný lög um umdæmaskipan lögreglustjóra og sýslumanna en með lögunum er embættum sýslumanna fækkað úr tuttugu og fjórum í níu og lögregluumdæmum úr fimmtán í níu.
Þá verður yfirstjórn lögreglu aðskilin frá yfirstjórn sýslumannsembætta. Samkvæmt tillögu úr innanríkisráðuneytinu er lagt til að sýslumaðurinn á Suðurlandi verði staðsettur á Selfossi og lögreglustjórinn á Suðurlandi verði á Hvolsvelli. Þá verður sérstakur lögreglustjóri og sýslumaður í Vestmannaeyjum.
Í dag er Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður og lögreglustjóri á Selfossi, Kjartan Þorkelsson er sýslumaður og lögreglustjóri á Hvolsvelli og Anna Birna Þráinsdóttir er sýslumaður í Vík. Þá er Karl Gauti Hjaltason sýslumaður og lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
Sveitarstjórn Rangárþings eystra fagnar þeirri ákvörðun innanríkisráðherra að höfuðstöðvar lögreglustjóraembættisins á Suðurlandi verði á Hvolsvelli. Hvolsvöllur sé miðsvæðis á Suðurlandi og byggðalagið vel í sveit sett.