Sýslumaður verður á Selfossi og lögreglustjóri á Hvolsvelli

Frá næstu áramótum taka gildi ný lög um umdæmaskipan lögreglustjóra og sýslumanna en með lögunum er embættum sýslumanna fækkað úr tuttugu og fjórum í níu og lögregluumdæmum úr fimmtán í níu.

Þá verður yfirstjórn lögreglu aðskilin frá yfirstjórn sýslumannsembætta. Samkvæmt tillögu úr innanríkisráðuneytinu er lagt til að sýslumaðurinn á Suðurlandi verði staðsettur á Selfossi og lögreglustjórinn á Suðurlandi verði á Hvolsvelli. Þá verður sérstakur lögreglustjóri og sýslumaður í Vestmannaeyjum.

Í dag er Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður og lögreglustjóri á Selfossi, Kjartan Þorkelsson er sýslumaður og lögreglustjóri á Hvolsvelli og Anna Birna Þráinsdóttir er sýslumaður í Vík. Þá er Karl Gauti Hjaltason sýslumaður og lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra fagnar þeirri ákvörðun innanríkisráðherra að höfuðstöðvar lögreglustjóraembættisins á Suðurlandi verði á Hvolsvelli. Hvolsvöllur sé miðsvæðis á Suðurlandi og byggðalagið vel í sveit sett.

Á fundi sínum síðastliðinn mánudag bókaði sveitarstjórn Rangárþings eystra einnig að hún mælti eindregið með því að Kjartan Þorkelsson verði lögreglustjóri í þessu nýja umdæmi.
„Kjartan […] og starfsmenn embættis hans hafa byggt upp öflugar almannavarnir í samvinnu við viðbragðsaðila og íbúa umdæmis lögreglustjórans á Hvolsvelli. Reyndi verulega á skipulagningu þessara mála í þeim stóru áföllum sem hér urðu á síðustu árum í eldgosunum í Eyjafjallajökli 2010 og Grímsvötnum 2011 svo og við stórflóð í Múlakvísl 2012, sem sýndu svo ekki verður um villst mikilvægi þess að hafa öflugt fólk með víðtæka reynslu á þessu sviði við stjórnvölinn þegar á reynir. Þá hefur Kjartan og hans fólk verið ötult við að byggja upp og styrkja sameinað lögregluembætti í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu,“ segir í bókun sveitarstjórnarinnar.
Fyrri greinHamar úr leik í bikarnum
Næsta greinRagnheiður og Þórdís með U15 í Köben