Um mánaðarmótin taka systurnar Ásdís og Hallveig Höskuldsdætur við rekstri Litlu kaffistofunnar við Suðurlandsveg af Stefáni Þormari Guðmundssyni sem hefur rekið staðinn í tæplega aldarfjórðung eða frá árinu1992.
Systurnar voru valdar úr hópi tæplega 100 umsækjenda, en það er Olís sem á staðinn og samdi um reksturinn við þær til næstu fimm ára.
mbl.is greinir frá þessu.
Ásdís hefur áður verið í hótel- og veitingageiranum bæði hjá Edduhótelum og í Staðarskála auk þess sem hún var rekstrarstjóri Domino’s í fjögur ár. Í dag rekur hún heildsölu. Hallveig hefur einnig mikla reynslu úr þessum geira, en hún rak Hreðavatnsskála í nokkur ár og í kjölfarið af þeim rekstri starfaði Hallveig bæði í Brú og í Staðarskála.
„Við ætlum ekki að breyta miklu, heldur halda okkur við súpurnar og smurða brauðið,“ segir Ásdís í samtali við mbl.is.