Miklar framfarir hafa orðið á aðstöðu og getu hjá tæknideild röraverksmiðjunnar Set ehf. á Selfossi undanfarna mánuði. Flutningur deildarinnar í húsið að Gagnheiði 1 á Selfossi hefur skapað meira rými fyrir starfsemina.
Þá hafa kaup á öllum tækjabúnaði vélsmiðjunnar Málmeyjar styrkt tæknilega getu deildarinnar mikið en mörg mikilvæg tæki fyrir starfsemina fengust þannig. Mestur fengur þar er í tölvustýrðri vatnsskurðarvél.
Mörg verkefni í vinnslu
Jóhann Valdimarsson hefur leitt nýsmíða- og viðhaldsmál Set um árabil og tekist á við mörg stór vöruþróunar- og smíðaverkefni. Einnig hafa starfsmenn deildarinnar sinnt verkefnum sem tengjast sölu og þjónustu við viðskiptavini.
,,Starfsmönnum hefur verið fjölgað og nú eru mörg verkefni í vinnslu.Vöruþróunarverkefnið í Elipex vinnslunni hefur skilað miklu, sérstaklega hvað varðar aukið einangrunarhæfi röranna og áfram verður haldið með þróun, smíði og kaup á einingum í vinnsluna. Lokið er smíði á mótum fyrir víðari gerðir hlífðarkápu utan um rörin en það er í fyrsta skipti sem starfsmenn hér smíða slíkan búnað,” segir Jóhann.
Fyrstu prófanir á einangrunargildi og ýmsum eiginleikum nýju einangrunarinnar hafa skilað góðri niðurstöðu. Unnið er að smíði fleiri hluta inn í Elipex-línuna auk þess sem er verið að leggja upp með verkefni sem tengjast tengistykkjasmíði og plaströramótun.
Vopnaverksmiðja í samkeppni
Nokkur tæki hafa verið smíðuð í vetur í tæknideild Set og nú er hafin vinna að smíði nýrrar vinnslulínu fyrir einangruð rör í verksmiðju Set Pipes í Þýskalandi. Vélarnar nýju voru meðal annars stans fyrir plastvegastikur og fleira. Nýlega var einnig tekin í notkun ný götunarvél fyrir drenrör og siturlagnir. Mörg verkefni hjá deildinni eru óunnin, en forgangsröðun þeirra er samkvæmt niðurstöðum stefnumótunar sem unnin var árið 2014.
,,Segja má að tæknideildin sé sjálfstætt starfandi framleiðslueining sem ræður úrslitum um árangur fyrirtækisins á fjölmörgum sviðum og hefur áhrif í öllum deildum. Tæknideildin er því einskonar vopnaverksmiðja í samkeppni,” segir Örn Einarsson sölustjóri Set.