Ríkisstjórn Íslands samþykkti í vikunni úthlutun 400 milljóna króna í sóknaráætlanir landshluta fyrir árið 2013. Suðurland fær 52,9 milljónir eða 13,2%.
Fjármagninu var deilt á átta landshluta og er þeim ætlað að ákvarða á grundvelli sóknaráætlana hvernig fjármagninu verður varið.
Um er að ræða fé sem ætlað er að fullreyna það skipulag og vinnulag sem stýrinet allra ráðuneyta í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga hafa unnið sameiginlega að síðustu tvö ár. Fjármagnið er hluti af fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar og kemur úr veiðileyfagjaldinu.
Sóknaráætlanir landshluta byggja á nýju verklagi og er ætlað að skapa traustan vettvang fyrir samskipti ríkis og landshluta og er ný nálgun í svæðasamvinnu og byggðaþróun sem nær til alls landsins.