Tætingsleg og tilkomumikil bylgjuský

Þórir N. Kjartansson í Vík tók þessa stórfenglegu ljósmynd af mögnuðum skýjum yfir þorpinu í Vík í síðustu viku.

Litadýrðin var mikil í Mýrdalnum að kvöldi þriðjudagsins 14. september en Þórir notaði tækifærið og bjó til ótrúlega 180° panorama mynd sem er samsett úr 7 myndum. Myndin sem fylgir fréttinni er aðeins hluti af listaverki Þóris en myndina má sjá í fullri stærð í myndaalbúmi hér til hægri.

Þennan dag var nokkuð hvöss norðanátt á landinu en sunnlenska.is hafði samband við Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing, til að útskýra hvað fyrir augu ber á myndinni.

„Af veðurtunglamyndum þennan dag má sjá bylgjuský sem stafa af Mýrdalsjökli og ná þau um nokkurn veg til sjávar suður fyrir fjöllin. Ský sem þessi eru nokkuð tíð í veðri sem þessu,“ segir Einar.

„Það sem var hins vegar óvenjulegra var að vestan Mýrdals mátti heita að heiðríkt væri. Geislar lágrar kvöldsólarinnar í vestri áttu því greiða leið að neðra borði skýjanna sem mér sýnist vera í um 3-5 km. hæð. Þau varpa síðan til baka fagurrauðum roða, en mest verður um rauðu litina þegar sólarljósið kemur undir litlu horni inn í lofthjúpinn, ýmist við sólarupprás eða sólsetur,“ segir Einar og bætir við að bylgjuskýin séu ólík öðrum skýjum sem koma af hafi. Þau eru frekar tætingsleg að sjá af jörðu niðri og það gerir roðann enn tilkomumeiri en annars væri.

Attached files

Fyrri greinVatn á Þjóðvegi 1
Næsta grein„Þetta var æðislegt mark“