Tækjageymsla á Heilsustofnun NLFí í Hveragerði eyðilagðist í eldsvoða í kvöld. Tilkynning um eldinn barst Neyðarlínunni kl. 21:07 og rúmum klukkutíma síðar var búið að slökkva eldinn að mestu leiti.
„Þegar við komum á staðinn þá var talsvert mikill reykur og eldur út um einn bílskúrinn. Það eru fimm bílskúrshurðir hérna og það var reykur kominn í öll rýmin en hann var aðallega í miðjurýminu og síðan breiddist hann um þakið,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, settur varaslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is, en hann stjórnaði aðgerðum á vettvangi.
„Þetta er gamalt hús auk þess sem í svona áhaldageymslum er bensín og allskonar plastvörur, þannig að það var talsvert mikill reykur sem barst yfir hluta bæjarins. Við kölluðum út björgunarsveit til aðstoðar lögreglu við að ganga í hús í nágrenninu og biðja fólk um að loka gluggum og það gekk mjög vel með frábæru samstarfi. Slökkvistarfið gekk líka vel og núna erum við að vinna í því með hitamyndavélum og þokustútum að slökkva í glæðum inn á milli sperra á þakinu. Það þarf að rífa og komast að þessu og það er einhver handavinna eftir frameftir kvöldi,“ bætti Lárus við.
Alls voru um 20-25 slökkviliðsmenn við vinnu á vettvangi auk lögreglu, sjúkraflutningamanna og björgunarsveitarfólks. Allt tiltækt lið slökkviliðs Brunavarna Árnessýslu, ásamt tveimur vöktum á slökkvistöðinni á Selfossi var kallað út.