Tæknilega flókið að ná flakinu upp

Ljósmynd/Landsbjörg

„Framundan er tæknilega flókin aðgerð við að ná flakinu og fólkinu sem í vélinni var upp á yfirborðið. Aðgerðinni fylgja umtalsverðar hættur fyrir björgunarlið og skiptir miklu að hún sé vel undirbúin,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi, sem rannsakar flugslysið á Þingvallavatni á fimmtudag.

Flugvélin TF-ABB lenti í vatninu um hádegisbil á fimmtudag en um borð voru flugmaður og þrír farþegar.

Starfshópur Landhelgisgæslu og kafara sérsveitar ríkislögreglustjóra, ásamt björgunarsveitum staðsettu um miðnætti í gær flak flugvélarinnar, með sónarmyndun, á botni Ölfusvatnsvíkur í Þingvallavatni. Í framhaldi af því var sendur kafbátur niður og með honum voru teknar ljósmyndir af flakinu sem staðfesta að um tiltekna vél er að ræða. Í framhaldi af því lauk vinnu á vettvangi en í nótt var unnið úr gögnunum og voru þau lögð fyrir á fundi aðgerðarstjórnar nú í hádeginu.

Fram að þessu hefur Landhelgisgæsla Íslands haft stjórnun aðgerða með höndum, í samræmi við ákvæði reglugerðar um leit og björgun, en nú þegar slysstaður er þekktur færist forræði máls yfir á hendur lögreglunnar á Suðurlandi.

Undirbúningur þess að ná vélinni upp fer fram „samhliða rannsókn slyssins sem er í höndum rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurlandi og Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Tæknileg úrlausn hennar verður í höndum Landhelgisgæslu og sérsveitar ríkislögreglustjóra sem munu kalla til þá aðila sem til þarf. Næstu dagar verða nýttir til undirbúnings og til þess að það gangi vel fyrir sig þarf að vera veðurgluggi sem varir að minnsta kosti í tvo sólarhringa,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Fyrri greinBjörgunarsveitir óku heilbrigðisstarfsfólki til vinnu
Næsta greinHef hangið á framtönninni í trampólínneti