Starfsmaður við Grunnskólann í Hveragerði hefur greinst með COVID-19 og hafa tæplega 300 nemendur við skólann verið skipaðir í sóttkví.
Að sögn Sævars Þórs Helgasonar, skólastjóra, hefur rakningarteymi á vegum almannavarna rakið ferðir hins smitaða og haft var samband við Sævar í kvöld vegna þessa.
Nemendur í 1., 2., 4., 5., 6., 7., og 10. bekk hafa, samkvæmt tilmælum lögreglu, sóttvarnaryfirvalda og almannavarna verið skipaðir í sóttkví frá 10. mars til 23. mars næstkomandi. Þessar dagsetningar voru gefnar upp og eru afturvirkar. Á þessum lista eru tæplega þrjú hundruð nemendur, einhverjir hafa ekki verið í skólanum þessa síðustu viku en upplýsingapóstur verður sendur til allra heimila.
„Það er mikilvægt að foreldrar nálgist mögulegar upplýsingar og færi börnum sínum fréttirnar í rólegheitum og með yfirvegun. Mikilvægt er að muna að fólk í sóttkví er ekki veikt heldur í fyrirbyggjandi aðgerðum. Þónokkrir starfsmenn eru líka komnir í sóttkví, þennan sama tíma. Upplýsingar um nemendur og starfsfólk hafa eins verið sendar til rakningateymis,“ segir Sævar skólastjóri í tilkynningu á vef skólans.
Fyrirkomulag náms og skólastarfs í Hveragerði næstu daga verður kynnt nánar síðar.