Ársreikningur Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2021 var lagður fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær.
Halli á samstæðureikningi Sveitarfélagsins Árborgar árið 2021 er alls 1.790 milljónir króna. Þar af eru fjármagnsgjöld vegna 5,6% verðbólgu 1.206 milljónir króna og í tilkynningu frá Gísla Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, segir að ætla megi að það sé 670 milljónum króna hærri útgjöld en í venjulegu árferði.
„Að auki má rekja 418 milljónir til óvæntrar hækkunar lífeyrisskuldbindinga sem urðu þannig 583 milljónir króna í stað áætlunar upp á 165 milljónir króna. Að síðustu má nefna að undirfjármögnun jöfnunarsjóðs á málefnum fatlaðra er um 240 milljónir króna á árinu 2021. Samanlagt eru þessir liðir um 1.330 milljónir króna. Án fyrrgreindra áfalla hefði halli af rekstri samstæðu Árborgar verið um 460 milljónir króna og er þá ekki allt talið,“ segir Gísli.
Vaxandi kostnaður vegna COVID-19
Auk ofangreindra áfalla segir Gísli að áfram verði talsverður kostnaður og tekjumissir vegna COVID-19. Má þar nefna endurgreiðslur á skóla-, leikskóla- og frístundargjöldum og vaxandi kostnað vegna veikinda starfsfólks.
„Kostnaður við félagsþjónustu hefur aukist verulega á síðustu árum vegna afleiðinga COVID-19 en einnig vegna annarra þátta, svosem íbúafjölgunar og sérstaks átaks á landsvísu í barnaverndarmálum. Þá hefur umtalsverður aukakostnaður skapast vegna tafa og óhagræðis í tengslum við uppbyggingu skólahúsnæðis og samsvarandi fjölgunar starfsfólks í skólum og leikskólum. Til dæmis var leikskólaplássum fjölgað mun meira á árinu 2021 en gert hafði verið ráð fyrir, enda er mikil eftirspurn eftir fjölgun plássa,“ segir Gísli.
Bæjarstjórinn segir starfsemi sveitarfélagsins og liðsheild starfsfólks vera orðna afar sterka og þjónustan sé öflug, í kjölfar breytinga á skipuriti og verkferlum þar sem lögð hefur verið áhersla á valdeflingu starfsfólks.
„Auk þess hefur stafræn þróun skilað vaxandi hagræði með bættri þjónustu og lægri kostnaði á fjölmörgum sviðum. Þetta mun skila sér í hagkvæmari rekstri á næstu árum og er full ástæða til bjartsýni á að reksturinn verði jákvæður þegar ytri aðstæður skána og ofantaldir vaxtaverkir jafna sig,“ segir Gísli að lokum.