Framkvæmdir við nýja tvíbreiða brú á Suðurlandsvegi yfir Brunná í Fljótshverfi, austan við Kirkjubæjarklaustur, hafa tafist nokkuð og verður brúarsmíðinni ekki lokið á áætluðum tíma sem var nú í lok ágúst.
Að sögn Sólveigar Gísladóttur, hjá samskiptadeild Vegagerðarinnar, hafa ýmis vandkvæði komið upp við Brunná í sumar. Bráðabirgðabrú sem byggð var í vor fór að hreyfast í vatnavöxtum og því þurfti að endurbyggja hana og þá reyndist ekki vera klöpp þar sem vísbendingar í borun gáfu til kynna og þurfti því að dýpka stöpla brúarinnar.
„Þrátt fyrir þessar tafir ætlar verktakinn sér að koma upp brúnni fyrir árslok og telur sig þurfa 10 vikur til að klára. Þá er vegagerðin eftir og hún fer dálítið eftir tíðarfari í haust. Ekki er ljóst hvort náist að klæða veginn til bráðabirgða eða hvort malarslitlag verði á veginum í vetur og klætt næsta vor,“ sagði Sólveig í samtali við sunnlenska.is.
Ístak er verktaki í brúarsmíðinni en nýja brúin verður 24 metra löng, eftirspennt steypt bitabrú í einu hafi með steyptum endastöplum.