
Leikskólinn Brimver/Æskukot á Eyrarbakka og Stokkseyri mun hér eftir heita Strandheimar og er nafnið til komið eftir nafnasamkeppni sem haldin var í vor.
Alls voru þrír einstaklingar sem komu með tillögu að því nafni; þau Hulda Guðmundsdóttir, Rúnar Eiríksson og Vigdís Unnur Pálsdóttir. Gripið var til þess ráðs að draga út sigurvegara í nafnasamkeppninni og kom nafn Rúnars upp úr hattinum. Hann fékk í verðlaun gjafabréf að þriggja rétta máltíð fyrir tvo hjá Rauða húsinu á Eyrarbakka og allir tillöguhafar fengu blóm í viðurkenningarskyni.
Nafnið Strandheimar hæfir leikskólanum vel og er táknrænt fyrir þær sakir að þorpin, Eyrarbakki og Stokkseyri, eru staðsett við strandlengju sem myndar tengingu þeirra á milli. Með því að láta nafnið enda á –heimar er einnig mynduð tenging við fleiri leikskóla sem starfræktir eru í Árborg.
Í tilkynningu frá Strandheimum segir að leikskólinn muni hægt og rólega hefja innleiðingu að nýja nafninu, sem verður svo afhjúpað og tekið formlega til notkunar á vorhátíðum leikskólans í júní.