Umfangsmikil leit stendur nú yfir á og við Ölfusá. Talið er að bifreið hafi farið í ánna við Básinn fyrir ofan Selfosskirkju.
Stór hópur viðbragðsaðila hefur verið kallaður út; björgunarsveitir, slökkvilið, lögregla og sjúkraflutningamenn. Leitað er frá Ölfusárbrú og niður eftir ánni. Björgunarsveitarbátar eru á ánni og meðal annars er leitað með hitamyndavélum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar er komin á leitarsvæðið. Um borð í henni er slökkviliðsmaður frá Brunavörnum Árnessýslu með hitamyndavél. Björgunarsveitarmenn leita á landi frá Selfossi og niður að Kaldaðarnesi.
UPPFÆRT KL. 23:35: Tilkynning barst Neyðarlínu um kl. 22:00 í kvöld þess efnis að ungmenni hefði séð bifreið ekið í ána. För á vettvangi og brak í ánni styðja þann framburð. Lögregla telur sig hafa sterkan grun um hver var þarna á ferð og eru aðstandendur viðkomandi í samráði við lögreglu um málið.