Talsvert tjón varð á efri hæð 700 fermetra iðnaðarhúsnæðis við Hrísmýri á Selfossi í dag þegar eldur kom upp í sal á efri hæð hússins. Búið er að slökkva eldinn en slökkviliðið er enn að störfum á vettvangi.
Það var lögreglumaður á frívakt sem varð eldsins fyrstur var og tilkynnti um hann til Neyðarlínunnar kl. 15:42. Mikill reykur stóð þá upp úr þaki á suðurgafli hússins og þegar slökkviliðið mætti á svæðið, nokkrum mínútum síðar, var sjáanlegur eldur á efri hæð hússins.
Reykkafarar fóru inn í húsið og gekk vel að ráða niðurlögum eldsins. Húsið var mannlaust en mikil verðmæti þar inni, meðal annars þrír vörubílar.
„Þegar reykkafarar fóru inn í húsið logaði talsvert út í loftaklæðningu inni í húsinu en þeir voru fljótir að ná tökum á eldinum. Það lítur ekki út fyrir að við þurfum að rjúfa þakið þar sem það er búið að rífa loftklæðningar og nú er unnið að því að slökkva í glæðum,“ sagði Pétur Pétursson, varaslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is á vettvangi.
Mikill viðbúnaður var hjá Brunavörnum Árnessýslu en allt tiltækt lið frá Selfossi og Hveragerði var kallað á vettvang. „Já, þetta er stórt hús því er miklu tjaldað til. Við vissum að húsið væri líklega mannlaust en það er mikið af dýrum búnaði inni í húsinu. Hingað til hefur slökkvistarfið gengið mjög vel og það náðist að slökkva fljótt. Nú tekur við reykræsting auk þess sem við þurfum að rífa niður klæðningu. Það er heilmikil vinna eftir fyrir reykkafarana, skítavinna, en þeir sinna henni af kostgæfni,“ sagði Pétur ennfremur.
Eldsupptökin eru óljós en rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi kannar þau.