Félag tamningamanna lýsir yfir áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem er upp er komin varðandi smitandi kvefpest í hrossum.
Þar sem ekki hefur tekist að greina veiruna eru afleiðingar pestarinnar enn óljósar og hún virðist þrálát og erfið viðureignar. Því vill Félag tamningamanna, FT, hvetja eigendur hesta til að huga fyrst og fremst að velferð hrossa sinna og hafa hag hestsins ávallt að leiðarljósi.
Stjórn FT fundaði um málið í vikunni og hvetur stjórnin félagsmenn sína og alla hestamenn til að fara varlega hvað þjálfun hrossa varðar og flýta sér hægt enda dæmi um hörmulegar afleiðingar ef of snemma er farið af stað.
„Samkvæmt siðareglum FEI, sem er alþjóðlegt stjórnvald hestaíþrótta og Landssamband hestamannafélaga er aðili að, skal velferð hestsins ætíð vera í fyrirrúmi,” sagði Sigrún Ólafsdóttir, formaður FT, í samtali við sunnlenska.is. „FEI gerir þær kröfur að allir þeir sem taka þátt í alþjóðlegum hestaíþróttum fari að siðareglum FEI og viðurkenni og virði öllum stundum að velferð hestsins skuli alltaf hafa forgang fram yfir keppnis- eða auglýsingakröfur,“ segir Sigrún ennfremur.
„Hesthús, fóðrun og þjálfun skulu uppfylla kröfur um góða meðferð hrossa og mega ekki stefna velferð þeirra í tvísýnu. Allt sem orsakað getur andlegar eða líkamlegar þjáningar, í keppni eða utan hennar verður ekki liðið,“ segir Sigrún og vísar þar enn í siðareglurnar. „Hross skulu ekki vera þjálfuð á þann hátt að það stefni líkamlegri eða andlegri getu og þroska í voða.“
Sigrún bætir við að stjórn FT hafi miklar áhyggjur af afkomu tamningamanna um þessar mundir og hvetur fólk til að huga vel að hrossum svo lágmarka megi skaðann og hægt verði að vinna sig út úr þessum vanda sem fyrst.
Sigrún segir gríðarlega mikilvægt að hestamenn sem ferðast á milli landa til vinnu eða samskipta við hross fylgi reglum um smitvarnir ítarlega. „En ekki síður að hestamenn og ferðaþjónustuaðilar hér á landi fræði viðskiptavini sína um þessar reglur. Heilbrigði íslenska hrossastofnsins er í húfi.”