Stuðningsmenn KR tóku tapinu gegn Þór í Þorlákshöfn í kvöld misvel en einn þeirra var staðinn að verki við að grýta bifreið sem stóð við heimahús rétt við íþróttahúsið.
Skemmdarvargurinn var í hópi nokkurra stuðningsmanna á leið úr íþróttamiðstöðinni eftir leikinn þegar hann tók upp grjót og henti í hliðina á nýlegum sendibíl sem stóð við heimahús.
Sjónarvottar voru að atburðinum og kölluðu þeir til piltsins sem tók þá á rás og lét sig hverfa. Félagar hans stóðu eftir og neituðu að kannast við piltinn og eftir það hélt hópurinn á braut.
Sjáanleg dæld og lakkskemmdir eru í hliðinni á bílnum. Skemmdarverkið hefur ekki verið tilkynnt til lögreglu en KR-ingurinn sem um ræðir er hvattur til að gefa sig fram.