Gjaldskrá Selfossveitna á heitu vatni mun hækka um 5% um áramótin en fulltrúar minnihlutans í framkvæmda- og veitustjórn Árborgar mótmæltu hækkuninni á síðasta fundi.
Á fundi framkvæmda og veitustjórnar þann 9. október sl. var ákveðið að hækka gjaldskrá Selfossveitna á heitu vatni um 3,3%. Á síðasta fundi nefndarinnar, þann 13. nóvember, var síðan lögð fram tillaga um að hækkunin yrði 5%.
Eggert Valur Guðmundsson, nefndarmaður S- lista og Andrés Rúnar Ingason, nefndarmaður V- lista, mótmæltu harðlega á fundinum að hækkunin yrði 5% og segja þeir þá hækkun vera verulega umfram það sem stjórn framkvæmda- og veitustjórnar hafði áður samþykkt. Hækkunin myndi hafa í för með sér rúma 40% hækkun á heitu vatni á kjörtímabilinu.
Að mati Eggerts og Andrésar er þessi aukna hækkun ekkert annað en illa dulin skattahækkun á íbúa Sveitarfélagsins Árborgar, „dulbúin sem hækkun gjaldskrár á heitu vatni.“
„Ef þessi tillaga verður samþykkt hefur verð á heitu vatni í sveitarfélaginu hækkað um rúm 43% á kjörtímabilinu sem er langt umfram launaþróun helstu launþegahópa. Ákvörðun um slíka stórhækkun á lífsnauðsynjunum á öll heimili í sveitarfélaginu er tekin án tillits til tekna og stöðu,“ segir í bókun Eggerts og Andrésar og því mótmæla þeir þessari auknu hækkun eindregið.
Fulltrúar D-listans, þeir Gunnar Egilsson, Ingvi Rafn Sigurðsson og Tómas Ellert Tómasson svöruðu með bókun þar sem fram kemur að breyting á vaktafyrirkomulagi og hækkun aðfanga umfram verðbólgu sem ekki lágu fyrir á fundi þann 9. október skýri þessa breytingu á því sem framkvæmda- og veitustjórn hafði áður samþykkt.