Minnihluti sveitarstjórnar Rangárþings eystra hefur gagnrýnt meirihlutann fyrir framkvæmd á breytingu skólaaksturs og að breytingar hafi verið gerðar án umræðu í sveitarstjórn.
Segir í bókun minnihlutans að með breytingunni sé dregið úr þjónustu við íbúa í dreifbýli. Á móti segir meirihlutinn að einungis sé um hagræðingu í rekstri að ræða. Málið snýst um að hádegisakstur yngstu nemenda var felldur niður einn tiltekinn dag vikunnar og eru þau vistuð í Skólaskjóli þar til þeim er ekið heim síðdegis ásamt öðrum nemendum skólans.
Telur minnihlutinn að með breytingunum sé aukið við þjónustu íbúa þéttbýlis á kostnað íbúa í dreifbýlinu. Meirihlutinn hafnar því hinsvegar að unnið hafi verið að því að skerða skólaakstur og að grunnþjónusta við íbúa í dreifbýli hafi verið skert.
Eftirspurn hafi verið eftir aukinni þjónustu Skólaskjóls og reynt er meðal annars að styðja við foreldra undir Eyjafjöllum með stuðningi sveitarfélagsins við opnun sjálfstæðrar dagvistunar. Auk þess er elstu nemendum leikskólans Arkar boðið að þiggja far með skólabílunum þegar aðstæður leyfa.
„Við erum alltaf að leita leiða til hagræðingar,“ segir Gissur Jónsson, deildarstjóri í Hvolsskóla, aðspurður um ágreininginn innan sveitarstjórnar. „Það skráðu sig allir í haust í ferðir heim. Þegar skráningar voru komnar í alla bíla, þá var hagrætt með því að bjóða nemendum skjól þar sem voru einungis einn til tveir nemendur í bíl og fengu viðkomandi nemendur inni í Skólaskjólinu,“ segir hann.
Til að mæta styttingu skólaársins er yngstu börnunum kennt lengur á þriðjudögum segir Gissur og með betri nýtingu á skólaakstri hefur Hvolsskóli með þessu móti náð að spara eina ferð á viku í skólaakstri og foreldrar bera ekki neinn aukakostnað vegna þessa.