Tekjur hafnarsjóðs Þorlákhafnar hafa aukist verulega á milli ára en sex mánaða uppgjör sjóðsins var kynnt á fundi hafnarstjórnar í síðustu viku.
Þar kom fram að tekjur hafnarinnar fyrstu sex mánuði ársins eru rúmar 57,9 milljónir króna en á sama tímabili í fyrra voru tekjurnar tæpar 40,8 milljónir króna. Tekjuaukningin á milli ára er því 42% en rekstur hafnarinnar er að öðru leyti í góðu samræmi við fjárhagsáætlun.
Hjörtur B. Jónsson, hafnarstjóri, sagði í samtali við sunnlenska.is að aðal ástæðan fyrir tekjuaukningunni væri að aukin og bætt þjónusta hjá höfninni, og þeim fyrirtækjum sem þjónusta skip og báta sem þangað koma, hafi skilað tilætluðum árangri.
„Einnig voru gerðar breytingar á gjaldskrá Þorlákshafnarhafnar til lækkunar og annarri þjónustu aðila sem tengjast hafnarstarfseminni. Þá hefur verið talsverð aukning í komu flutningaskipa, sem kallar enn frekar á þær endurbætur á höfninni sem við höfum verið að vinna að að undanförnu,“ segir Hjörtur og bætir við að frystiskip hafi einnig komið í auknum mæli til Þorlákshafnar til löndunar í frystigeymslur Kuldabola.