Tekjur nokkuð umfram áætlanir

„Já, ég er eiginlega búin að vera að bíða eftir þessum viðsnúningi,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar um nýlegar tölur sem benda til þess að útsvarstekjur sveitarfélagsins séu talsvert umfram áætlanir á fyrstu mánuðum þessa árs.

Nýverið hafa verið lagðar fram tölur um staðgreiddar útsvarstekjur í Árborg þar sem kemur fram að á fyrstu þremur mánuðum ársins 2016 eru þær 78 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir, og meira en 140 milljón krónum hærri en á sama þriggja mánaða tímabili í fyrra. Þarna er miðað við áætlun hvers mánaðar, en ekki jafnaða dreifingu áætlaðra tekna yfir árið.

Ásta segir þetta vera fremur jákvæða þróun, en hún sé afleiðing þess hve laun ha hækkað mikið, bæði hjá hinu opinbera og á almennum markaði. Þá hafi atvinnuástand í héraðinu verið með ágætum.

Mikil hækkun launa hjá sveitarfélögum olli því að útgjöld þeirra hækkuðu talsvert um tíma umfram hækkun tekna, en þegar launahækkun var orðin staðreynd á almennum markaði, tók útsvar af tekjum almennings að streyma í auknum mæli inn í sjóði sveitarfélaganna. Ásta segir þó ekkert víst hver þróunin kunni að verða í framhaldinu.

Hvað útgjaldahlutann varðar segir Ásta ekkert benda til þess að útgjöld séu að hækka mikið umfram áætlanir, en ýmislegt verði þó til þess að auka útgjöld, svo sem veikindaforföll og kostnaður vegna forfallakennslu á ýmsum skólastigum. „En það á ekki bara við um okkur, heldur að líkindum öll sveitarfélög,“ segir Ásta.

Fyrri greinHefja framleiðslu í maí
Næsta greinHamarsmenn öruggir í úrslitakeppnina