Tekur yfir rekstur Kjötbankans

Sláturhúsið á Hellu hefur tekið yfir rekstur Kjötbankans í Hafnarfirði og hyggst efla starfsemi sína mjög á markaði með fullunnar kjötvörur.

Gert er ráð fyrir að starfsmönnum fjölgi og að veruleg aukning verði á umsvifum félagsins á næstu árum.

Að sögn Þorgils Torfa Jónssonar, framkvæmdastjóra Sláturhússins á Hellu, keypti fyrirtækið öll tæki og tól Kjötbankans í ágúst síðastliðnum en fyrirtækið varð gjaldþrota fyrr á árinu. Nú í september var starfsemi fyrirtækins opnuð á ný og er Kjöt­bank­inn nú rekinn samhliða rekstri slátur­hússins. Fimm manns starfa hjá Kjötbankanum en gert er ráð fyrir að þeim fjölgi upp í 7 til 8 innan skamms. Hjá Slát­ur­húsinu vinna 18 manns.

,,Þetta fellur vel að því sem við höf­um verið að gera hér á Hellu og flýtir mjög fyrir þeim stækkunar­áformum sem við höfum haft,“ sagði Þorgils Torfi. Fyrr á árinu var hafist handa við að reisa hús undir kjötvinnslu við hlið slátur­húss­ins. Húsið verður fokhelt á næstu vikum og er stefnt að því að taka það í notkun á næsta ári. Að sögn Þorgils Torfa hefur verið ætlunin um nokkurt skeið að auka fullvinnslu fyrirtækisins og færa sig þannig nær neytendavörumarkaði. ,,Kaupin á Kjötbankanum geta flýtt verulega fyrir þeim áformum.“

Gert er ráð fyrir að umtalsverð veltuaukning verði hjá fyrirtækinu og að starfsmönnum fjölgi um allt að 50% á þessu ári. Að sögn Þorgils Torfa gæti starfsmannafjöldinn tvö­fald­ast á næstu árum. En þarf fyrirt­ækið að auka hlutafé vegna þessara kaupa?

,,Við gerum þetta í gegnum reksturinn en Sláturhúsið stendur mjög vel. Það hefur verið skuldlaust félag í mörg ár. Við erum því vel í stakk búin til að takast á við þetta verkefni.“

Fyrri greinJónas á Merkigili í kvöld
Næsta greinSveitarfélögin eru 76