Sveitarstjórn Skaftárhrepps hafnar því algerlega að taka þátt í stofnun byggðasamlags um fasteignir í Sveitarfélaginu Árborg sem nýttar eru í þágu fatlaðs fólks eins og segir í samþykkt sveitarstjórnar frá því í síðustu viku.
Sveitarfélagið Árborg hefur sem kunnugt er lagt fyrir sveitarfélög á Suðurlandi tillögu um stofnun byggðasamlags um eignarhald á fasteignum vegna málefna fatlaðra. Tillagan gerir ráð fyrir því að stofnað verði byggðasamlag aðildarsveitarfélaga þjónustusvæðis um málefni fatlaðra á Suðurlandi um eignarhald og rekstur húsanna Gagnheiði 39 og Álftarima 2 og lántöku vegna kaupanna.
Að sögn Eyglóar Kristjánsdóttur, sveitarstjóra Skaftárhrepps, telur sveitarfélagið sig ekki hafa þörf eða getu til að taka þátt í þessu starfi. „Þá teljum við okkur ekki hafa heimild til að skuldbinda sveitarfélagið með þessum hætti vegna samnings okkar við innanríkisráðuneytið, vegna samstarfs við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Það kveður á um að öllum skuldbindingum okkar sé haldið í lágmarki,” sagði Eygló.