Telja trygga bankaábyrgð fyrir greiðslu

Fyrrverandi og núverandi sveitastjóri Ölfuss telja að fullgild bankaábyrgð sé fyrir greiðslu á skuld Icelandic Water Holding, sem á vatnsverksmiðju í Ölfusi, vegna kaupa á jörðinni Hlíðarenda og vatnsréttindum hennar.

Þann 1. ágúst á lán sem sveitarfélagið veitti við kaupin að greiðast upp og sagðist Ólafur Áki Ragnarsson, fyrrverandi sveitastjóri Ölfuss, ekki hafa neinar efasemdir um að full greiðsla fengist. Ólafur Örn Ólafsson, núverandi sveitarstjóri, staðfesti tilvist bankaábyrgðarinnar og sagðist ekki vita annað en að það tryggði fulla greiðslu.

,,Vegna þeirrar umræðu sem hefur verið um verksmiðjuna vill ég taka fram að ég er mjög stoltur yfir að þetta fyrirtæki skyldi hafa risið. Þar vinna nú 22 starfsmenn og það hefur valdið miklum breytingum á svæðinu,” sagði Ólafur Áki. Hann benti á að þegar gengið var frá samningum á sínum tíma hefði það orðið niðurstaða að Glitnir hefði veitt fulla bankaábyrgð fyrir jarðarverðinu og hann vissi ekki betur en að Íslandsbanki hefði tekið yfir þá ábyrgð. Ólafur Áki sagði að ábyrgðin hefði verið vísitölutryggð og hefði staðið í 142 milljónum króna þegar hann hefði hætt sem sveitarstjóri síðasta vor.

Ólafur Áki benti á að þegar jörðin var auglýst til sölu á sínum tíma hefði komið eitt tilboð upp á 42 milljónir króna en hreppurinn hefði viljað fá 60 milljónir. Þremur mánuðum síðar hefði komið tilboð frá Jóni Ólafssyni, eiganda Icelandic Water Holdings, upp á 100 milljónir króna sem hefði átt að greiða 1. ágúst 2011. Því hefði verið tekið en menn hefðu viljað forðast í lengstu lög að þurfa að leysa til sín verksmiðju og því hefði bankaábyrgð verið fengin. Ólafur Áki sagðist halda að það ætti eftir að koma á daginn að það væri rétt ákvörðun.

Fyrri greinGengið á Bjarnafell í kvöld
Næsta greinSamið um seyrulosun