Bæjarfulltrúi D-listans lagði fram fyrirspurn í bæjarráði Árborgar á dögunum þar sem spurt var hversu oft fjölskylduklefar Sundhallar Selfoss eru þrifnir á viku.
Bæjarráð kallaði eftir upplýsingum frá Magnúsi Gísla Sveinssyni, forstöðumanni sundhallarinnar, sem sendi svar inn á næsta fund bæjarráðs. Þar kom fram að unisexklefarnir séu alþrifnir einu sinni í viku en oftar ef þörf sé á aukaþrifum. Bæjarráð þakkaði Magnúsi fyrir svarið og óskaði í framhaldinu eftir minnisblaði um það hvernig bæta megi vinnulag þannig að tryggt sé að þrif verði eins og best verður á kosið.
Magnús svaraði því fyrir fund bæjarráðs í síðustu viku og sagði að svona mál ættu frekar við inni á skrifborði hjá honum heldur en að bæjarráð sé að kljást við þau. Með svarinu lét hann fylgja ellefu lykla starfsmannastefnu sveitarfélagsins þar sem meðal annars kemur fram að kjörnir fulltrúar eigi ekki að hafa afskipti af daglegum störfum starfsmanna eða af verkstjórn.
Rétta leiðin að ræða við starfsfólk sundhallarinnar
„Til þess að geta brugðist við þessari ósk eftir minnisblaði um bætt vinnulag, þarf ég að fá að vita ástæðu upphaflegu fyrirspurnarinnar,“ segir Magnús sem taldi sig hafa sent bæjarráði skýr svör um vinnulag í upphafi.
„Þar sem ég hef ekki fengið neinar athugasemdir frá starfsfólki eða gestum við vinnu eða verklag vegna þrifa í unisexklefum, tel ég ekki þörf á bættu vinnulagi að svo stöddu. […] Rétta leiðin í þessu hefði verið að ræða við starfsfólkið eða mig í Sundhöll Selfoss og koma ábendingum til okkar,“ segir Magnús og bendir einnig á nýlega ábendingagátt á heimasíðu sveitarfélagsins sem gæti nýst til þessa.
„Það er einlæg ósk mín að sá sem lagði fram fyrirspurnina hafi samband við mig ef eitthvað hefur verið að verklagi svo ég geti brugðist við og lagfært ef þess þarf,“ segir Magnús.