Tengivagn flutningabíls hafnaði utan vegar og valt á Gatnabrún í Mýrdal í kvöld en engan sakaði.
Flutningabíllinn var fullur af fiski og öðrum farmi en talið er að keðja hafi slitnað undan bílnum og rekist í tengibúnað vagnsins með þessum afleiðingum.
Bílstjóri flutningabílsins var nýlega lagður af stað upp brekkuna, eftir að hafa sett keðjur undir bílinn, þegar óhappið varð, en mikil hálka er á þessum slóðum. Tengivagninn er nokkuð skemmdur og hófst vinna fljótlega við að bjarga farminum, sem samanstóð af fiski í körum, bárujárni og límtrésbitum.